16.4.2008 | 17:56
Erfiðir dagar.
Núna eru erfiðir dagar.
Tengdapabbi greindist með krabbamein síðasta haust, fór í aðgerð, þar sem annað lungað var tekið. Allt leit ágætlega út, hann fór í geisla og svo lyfjameðferð. En þegar hann fór í rannsókn fyrir um mánuði síðan, kom í ljós að ekkert dugði og ekkert meira hægt að gera. Hann hefur legið heima síðan. Núna hefur hann verið í móki síðan á síðasta fimmtudag, og er mjög kvalinn.
Það er svo sárt að sjá hann svona.
Æi þetta er svo erfitt.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2008 | 17:58
Blogg um blogg.
Þegar ég byrjaði að blogga í mai 2005, fannst mér ég alltaf hafa nóg að segja. Bloggaði yfirleitt daglega.
Reyndar byrjaði ég að blogga út af mínu þunglyndi, það hjálpaði mér.
Í dag er erfitt að blogga, síðustu mánuði hef ég reynt að henda einhverju hér inn, svona vikulega.
Er þessi bloggstífla af því ég er orðin hressari ? Er ég farin að hugsa meira, og þori því ekki að setja hvað sem er inn ?
Jú ég er hressari en ég var fyrir 3 árum, eða bara einu ári.. Jú ég er farin að hugsa meira, og já, ég þori ekki að setja hvað sem er hér inn. En af hverju ?
Núna, eftir hverja bloggfærslu, fæ ég kvíðakast, sem ekki líður frá, fyrr en svona sólarhring eftir birtingu. Ég virðist vera að bíða eftir viðbrögðum. Og mikið langar mig oft að commenta hjá bloggvinum meira en ég geri. Oft hefur það komið fyrir að ég skrifa alveg helling í commenti, les það yfir og stroka svo út, þori ekki að láta það vaða. Svo oft commenta ég ekki neitt, eða segi 2-3 orð.
Þannig að þó að þunglyndið sé orðið betra, þá virðist félagsfælnin (það að láta ekki taka eftir sér) og kvíðinn, enn vera til staðar.
Þegar ég byrjaði að blogga, var það á Msn-blogginu, og einungis mínir ættingjar og vinir lásu það.
En hér eru svo margir sem lesa, samt læt ég bloggið mitt ekki birtast þarna á forsíðu blog.is. En ég hef eignast yndislega bloggvini, endurnýjað kynni við gamla vini og kynnst fullt af fólki.
Ég ætla sko ekki að gefast upp. Ég skal geta bloggað meira um hvað sem er (hvenær sem það verður) og ég skal geta tjáð mína skoðun í commenti (aftur: hvenær sem það verður), og hana nú (sagði hænan og lagðist á bakið).
Ég fór á geðfund í gærkvöldi, og opnaði mig þá svolítið um mína dvöl á Kleppi (var þar 3-sinnum) og mína miklu lyfjanotkun, (21 pilla á dag) (það varð 1 ár núna í mars sl, síðan ég hætti á öllum pillum) kannski það sé þessvegna sem ég læt þetta vaða núna.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.4.2008 | 13:00
Smá landafræði.
Stal þessu af blogginu hjá kallinum mínum.
Landafræði kynjanna: Landfræði konunnar:
Þegar konan er á aldrinum 18-21 árs er hún eins og Afríka eða Ástralía.
Hún hefur verið uppgvötuð að hálfu leyti, en er annars villt og skartar náttúrulegri fegurð. Á frjósömustu svæðunum er mikill gróðurvöxtur.
Þegar konan er á aldrinum 21-30 ára er hún eins og Bandaríkin eða Japan. Hún hefur verið uppgötvuð að fullu, er mjög þróðuð og er opin fyrir öllum viðskiptum. Og þá sérstaklega þeim sem snerta bíla eða peninga.
Á aldrinum 30-35 er konan eins og Indland eða Spánn. Hún er heit og afslöppuð og þykir mikið til eigin fegurðar koma.
Þegar konan er á aldrinum 35-40 ára er hún eins og Frakkland eða Argentína.Hún gæti hafa farið illa út úr styrjöldum, en er samt nokkuð hlýr og eftrisóknarverður heimskóknarkostur.
Á aldrinum 40-50 er konan eins og Júgóslavía eða Írak. Hún tapaðistríðinu og fær ekki frið fyrir mistökum sem hún gerði á árum áður. Nauðsynlegt er að ráðast í viðamikla endur uppbyggingu.
Á aldrinum 50-60 ára er konan eins og Rússland eða Kanada. Hún er mikil um sig, þögul og landamærin eru nánast óvarin, en hið kalda loftslag heldur fólki fjarri.
Þegar konan er á aldrinum 60-70 ára er hún eins og England eða Mongólía. Hún skartar stórkostlegri og sigursælli fortíð en engri framtíð.
Eftir sjötugsaldurinn verður konan eins og Albanía eða Afganistan. Allir vita hvar hún er en enginn vill fara þangað.
Landfræði karlsmannsins: Þegar karlmaðurinn er á aldrinum 15-70 ára er hann eins og Zimbabwe.Honum er stjórnað af drjóla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.4.2008 | 02:29
Komin heim.
Loksins er ég komin heim, tveimur dögum seinna en áætlað var.
Ferðin til Rvik síðasta fimmtudag var ekki skemmtileg. Þegar við komum á Mýrdalssand, skall á óveður. Við urðum að lúsast áfram og margstoppa, því stikurnar á veginum sáust ekki, alveg blindbylur. Þegar við loks komumst í Vík, stoppuðum við í sjoppunni, því allir þurftu að pissa, og við mæðgurnar að reykja. Svei mér þá, hélt við yrðum úti, bara við að brjótast úr bílnum inn í sjoppuna, börnin pissuðu og við selfluttum þau aftur út í bíl, og þá var komið að langþráðum smóknum. Þarna húktum við undir húsvegg, dóttir mín og ég, sáum varla hvor aðra, og stóðum varla í lappirnar, þvílíkt veður. Mikið á sig lagt fyrir smókinn. Fólksbíll festist í snjóskafli rétt við okkur, og þurfti dóttir mín að ná í spotta í bílinn sinn og draga hann upp, en við vorum á stórum jeppa. Áfram var svo haldið, og eftir svona 15km keyrðum við út úr óveðrinu, en bæði færð og veður var ekkert til að hrópa húrra yfir, það sem eftir var til Rvik.
Einar sonur minn kom frá Borgarnesi, til að ná í mig, og hitti okkur í Mosfellsbæ, og ég fór áfram í Borgarnes. Þangað vorum við komin um hálfeitt, yndislegt, 7 tíma ferðalagi lokið.
Föstudagur, veik, lá fyrir allan daginn,minn yngsti sonur (Jón Ingi) kom til að knúsa mig, reif mig upp til að fara í kvöldmat til systur minnar.
Laugardagur, fárveik, fór ekki út úr húsi.
Sunnudagur, hressari, Helga dóttir mín kom uppeftir með sín 4 börn og eiginmann, ég dreif mig út með þeim og Einari og Jóni Inga, fórum í vöfflu-og-pönnsu-veislu hjá systur minni. Ég var þrælslöpp, en þegar synir mínir voru að koma mér heim, rétt fyrir kvöldmat, ákvað ég að kíkja á Önnu-bloggvinkonu. Mikið var gaman að hitta hana, hef ekki séð hana í svo mörg ár, hefði viljað stoppa lengur hjá henni, en fann að heilsan leyfði það ekki.
Mánudagur, fárveik. Helga dóttir mín hringir og segist ekki komast austur fyrr en á miðvikudag.
Þriðjudagur, frekar slöpp, skellti í mig nokkuð mörgum verkjapillum, og rauk út, fór í 5 heimsóknir.
Miðvikudagur, heilsan svona lala, allavega skárri en deginum áður, og það var jákvætt. Dóttir mín sagðist ætla af stað austur milli 6-7, svo við fórum af stað úr Borgarnesi um 5-leytið. Við byrjuðum á að fara í Rúmfatalagerinn í Skeifunni þegar við komum til Rvik, því ég varð að kaupa sængur handa okkur gömlu hjónunum. Ekki annað hægt eftir að okkar hundar höfðu tætt sundur eina af okkar sængum, fyrir um mánuði síðan. Þegar við vorum að koma út úr búðinni, hringdi dóttir mín í mig, og sagðist vera hætt við að fara af stað austur, því það væri óveður í kringum Vík, eins og um daginn, þegar við vorum á ferðinni. Svo ég reddaði mér í snarhasti gistingu hjá systur minni, sem býr í Rvik, yndislegt að geta hitt hana.
Fimmtudagur, lagt af stað hingað heim um 5-leytið og ferðin gekk vel.
Yndislegt að koma heim, heima er best.
Verst var að ég hef misst af tveimur geðfundum og einu geðviðtali á þessari viku, en held bara að það að hitta ættingja mína og vini,komi í staðinn fyrir það.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.3.2008 | 15:46
Húsmæðraorlof.....tralalalala
Núna er komið að mínu árlega húsmæðraorlofi í Borgarnesi. Hef reynt síðustu ár að fara þangað í svona vikutima á hverju ári. Er þá hjá næstelsta syni mínum. Yngsti sonur minn býr líka í Borgarnesi hjá pabba sínum, og svo á ég líka systir þar, og vini og kunningja. Bjó í Borgarnesi frá 1985-2001.
Dóttir mín, sem býr hér á Höfn, sagði mér í gær að hún ætlaði til Rvik með sín 4 börn til að heimsækja manninn sinn, en hann hefur verið á Reykjalundi síðustu 4 vikur. Hún ætlar að stoppa fram á þriðjudag, svo mér fannst upplagt að nota ferðirnar og skella mér með.
Við förum í dag, eftir kl 5, en þá er hún búin að vinna. Gistum í verkalýðsfélagsíbúð sem hún er búin að fá í Rvik, svo ætlar hún að skutla mér í Borgarnes á morgun, föstudag.
Reyndar finnst mér þetta frekar stutt stopp, hefði viljað fá fleiri daga, en það er ekki á allt kosið, og þetta er allavega betra en ekki neitt.
Kallinn minn, Sólveig dóttir hans sem býr hér hjá okkur og Veigar litli sonur hennar, eiga eftir að hafa það fínt hér heima með hundunum, þó svo kellingin bregði sér af bæ.
Verst er að við erum öll komin með kvef, hálsbólgu og hita, en ég SKAL fara. Ligg þá bara veik hjá syni mínum og læt hann stjana í kringum mig, og þau geta hjúkrað hvort öðru hér heima.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.3.2008 | 22:57
Hitt og þetta.
Jæja þá eru kisurnar komnar í pössun hér úti í bæ, góð kattarkona tók þær að sér,því ofnæmið mitt var komið á fullt.
Forstofan er sko orðin fín, fataskápurinn sem átti að fara þar inn, en passaði svo ekki, er kominn upp í herbergi, ein röð af hillum kom þar í staðinn og svo fataslá, og flísar og parket á gólfið.
Baltó og Tígull eru rólegri eftir að kisurnar fóru, en njóta þess að hafa lítinn strák á heimilinu, sérstaklega Baltó sem finnst gaman að leika.
Og mikið er gott að hafa hunda á heimilinu, þegar litlar hendur missa mat á gólfið, maður þarf bara ekkert að sópa
Á laugardaginn þurfti ég í Nettó, og fékk þá hryllilegt kvíðakast, ástæðan er líklega að búðin var troðfull, fullt af ókunnugu fólki (margir hér um páskana) og mikið skvaldur og hávaði. Ég svitnaði og byrjaði að kúgast, henti í körfuna og arkaði að kassa með hausinn niðri í bringu.
3 kassar í gangi, en biðraðir við alla kassana, en assgoti ég skyldi meika þetta, og það tókst. Fór svo á geðfund á eftir, sem hjálpaði mér mikið, eins og venjulega.
Þessi félagsfælni er helvíti.
Fyrst ég fór að tala um búðarferð, þá bara verð ég minnast á hvað mér finnst allar vörur hafa hækkað mikið, síðustu vikur. Við hér á Höfn vorum svo ánægð fyrir 1 ári síðan þegar 11-11 hætti og Nettó kom í staðinn. Vá hvað þá var gaman að versla, allt svo ódýrt. En í dag, er ekki eins gaman, held stundum að ég sé að versla í 11-11 en ekki Nettó.
Páskarnir hafa verið rólegir, étið og legið í leti, reyndar nokkur ár síðan við gömlu höfum verið heima um páskana.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.3.2008 | 10:31
Fjölgun á heimilinu.
Nei, ég er ekki ólétt (enda löngu búið að gelda mig).
Á mánudag flutti hingað til okkar frá Reykjavík, eldri dóttir Ronna,með litla strákinn sinn(hann verður 2 ára í ágúst),og tvo ketti. (og ég sem er með kattarofnæmi.).
Hér varð mikill eltingarleikur um allt hús, hundarnir að elta kettina, og varð allt mitt glingur í stórhættu, því kattargreyin stukku upp á hillur og skápa.
En núna eru kettirnir bara uppi í gestaherbergi,ég átti barnahlið, sem er núna í stiganum, til að varna því að hundarnir æði upp. Það gengur misjafnlega, Tígull er sko meistari í hástökki án atrennu. Furðulegt að sjá þennan stóra hund, svífa yfir eins og ekkert sé.
Veit ekki hvað lengi heimilislífið hér verður svona fjörugt, það fer eftir því hvenær dóttirin fær íbúð,vinnu og pössun.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.3.2008 | 19:22
Frá geðfundi.
Dag einn bað kennari nemendur sína að skrifa nöfn bekkjarfélaganna á blað. Þeir áttu að skrifa eitt nafn í hverja línu og hafa auða línu á milli. Síðan bað hún nemendur sína að hugsa um það besta um hvern og einn og skrifa það fyrir neðan nafnið. Þegar nemendur fóru úr tíma skiluðu þau blöðunum til kennarans sem fór með þetta heim og bjó til lista yfir hvern nemanda og safnaði saman því sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað. Síðan fengu nemendurnir þetta í hendurnar daginn eftir. Þegar þeir lásu þetta urðu þeir hissa á öllu því jákvæða sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að þeir skiptu svona miklu máli. Kennarinn vissi ekki hve mikið nemendurnir ræddu þetta sín á milli eða við foreldrana en þetta hafði tilætlaðan árangur. Nemendurnir urðu ánægðari með sig og aðra í bekknum, þeim leið betur.
Lífið hélt áfram.
Mörgum árum seinna lést einn nemendanna sem hét Magnús og kennarinn ákvað að vera viðstaddur jarðarförina. Einn vinur hins látna gekk til hennar og spurði hvort hún hefði verið kennarinn hans og sagði að Magnús hefði talað mikið um hana. Foreldrar hins látna komu einnig til hennar og vildu sýna henni svolítið . Þau höfðu fundið samanbrotið blað í veski Magnúsar og var það listinn með öllu jákvæðu atriðunum frá bekkjarfélögunum sem kennarinn hafði fengið honum fyrir mörgum árum. "Þakka þér fyrir að gera þetta,því eins og þú sérð þá skipti þetta hann miklu máli" sagði móðir Magnúsar. Fyrrum bekkjarfélagar tóku undir það og sögðu að þessi listi hefði fylgt þeim öllum gegnum lífið og skipt þá mjög miklu máli. Þetta var eitt af Því sem þeim þótti vænst um. Þegar gamli kennarinn heyrði þetta settist hún niður og grét, bæði syrgði hún Magnús og svo var hún hrærð yfir því að hafa snert nemendur sína með þessu uppátæki.
Flest okkar hegðum við okkur þannig eins og að við höfum gleymt því að lífið endar einn góðan veðurdag. Enginn okkar veit hvenær sá dagur verður. Þess vegna bið ég þig að segja við þá sem þér þykir vænt um hvað þeir séu þér mikilvægir og eigi sérstakan stað í hjarta þér. Gerðu það oft áður en það verður of seint.
Sýndu að þér er annt um vini þína. Mundu að þú uppskerð eins og þú sáir. Mundu að þú ert mikilvægur einhverjum. Vona að dagurinn verði þér góður og sérstakur því þú skiptir miklu máli!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.3.2008 | 20:18
Arrrggggg.....hundalíf.
Í gærkvöldi fór ég á geðfund, sem er kl 9, Ronni var að vinna í aukavinnunni.
Af því að Baltó er búinn að tæta niður hitt og þetta síðustu vikur, þá læsti ég hann inni í stærra búrinu (erum með 2 hundabúr, annað frekar stórt, en hitt ferðabúr), en Tígull fékk að vera á lausu.
Eftir fundinn fór ég að sækja Ronna og við komum hér heim rétt fyrir ellefu.
Ég hljóp strax upp til að hleypa Baltó greyinu úr búrinu, (er mjög á móti því að læsa hunda svona inni), kom inn í svefnherbergi og ARGAÐI.
Sængin hans Ronna var í tætlum út um allt herbergið, pífur sem voru á neðri dýnunni voru í henglum hér og þar, lakið rifið og tætt og búið að narta í dýnuna líka.
Baltó var enn inni í búrinu.
Svo sökudólgurinn var Tígull.
Var ég kannski búin að skamma Baltó fyrir ekki neitt síðustu vikur? Eða hafa þeir hjálpast að við að rífa og tæta?
Ég svona rúttaði því mesta til, svo hægt væri að sofa, en tók svo herbergið í gegn í morgun.
Í dag fór ég svo í mitt vikulega viðtal hjá félgasmálastjóra (hann er svona minn sálfræðingur), og lokaði þá hundana inni í sitt hvoru búrinu. Viðtalið var kl 2, það tekur um klukkutíma, fór í heimsókn til vinkonu, og svo kl 4 náði ég í Ronna í vinnuna, og við hingað heim. Hver tekur á móti okkur í forstofunni ? Baltó.
Hann búinn að ná að tæta sundur hurðina á ferðabúrinu, ég æddi um alla íbúð til að leita að skemmdum, en allt var í lagi. Tígull var enn lokaður inni í stóra búrinu.
Baltó fengum við í júlí í fyrra,þá var hann 6 mán. hjónin sem áttu hann sáu sér ekki fært að hafa hann,því þau unnu bæði úti, og því var Baltó alltaf einn heima. En þau töluðu ekkert um að hann væri að skemma hluti. Enda hefur hann ekkert verið að skemma neitt hjá okkur, fyrr en núna.
Hann er 50% Siberian-Husky og 50% Bordie-Collie.
Tígul fengum við í des. síðastliðinn, hann er 5 ára. Hann er hreinræktaður enskur-pointer, ekta fuglaveiðihundur og mikið þjálfaður til þess, og sýnir það líka þegar minn kall fer að veiða, og tekur hann með.
Baltó fer líka oft með honum að veiða og sýnir góða takta.
Báðir eru þeir miklir kúruhundar, þegar við erum að horfa á sjónvarp, klessa þeir sér í fangið á okkur, kúra þar og hrjóta.
Þeir eru vanir því að ég sé alltaf heima, en núna þegar ég er loksins farin að fara meira út, á ég þá að láta þá stoppa mig? Auðvitað vil ég að þeim líði vel, en er ekki hægt að venja hunda á að vera eina heima, 2-3 tíma á dag? Núna spyr ég eins og fávís kona, því ég hef alltaf verið heima, með mína hunda. Mér líður illa að þurfa að loka þá inni í búri, ef ég fer út. Ef ég bind þá hér fyrir utan hús, þá gelta þeir og væla (reyndar kann Baltó ekki að gelta, hann ýlfrar, og jú reynir að gelta, en er eins og strákur í mútun), og það vil ég ekki, verð að hugsa um nágrannana.
Ég elska þessa hunda og vil allt fyrir þá gera.
Well, er farin í hundana.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.3.2008 | 17:17
Aldrei heima.
Ég hef lítið vera heima síðustu 4-5 vikur, alla daga (nema um helgar) hef ég farið eftir hádegi hér út í bæ og aðstoðað konu. Núna fer ég bara 2-3 í viku. Baltó og Tígull hafa því mikið verið einir heima. Fyrst var allt í lagi, en fyrir um 2 vikum byrjaði Baltó að eyðileggja hitt og þetta sem hann komst í, blýantur,penni,pósturinn,dagblöð,húfur og vettlingar. Einn daginn þegar ég kom heim, snappaði ég, lesgleraugun mín voru í tætlum, ég út á Olís og kaupi ný, eftir 2 daga voru þau í tætlum. Keypti mér ný í gær, og fel þau hátt uppi í hillu.
Hvað ætli sé í gangi ? Mótmæli ?
Hann er hættur með pissustandið, enda búinn að fá 7 penselin-sprautur, svo vonandi er hann orðinn góður.
Ég fer á geðfundi á laugardögum og miðvikudögum, viðtal hjá félagsfulltrúa á fimmtudögum, og bregð mér í barnapíuhlutverk á hverju mánudagskvöldi fyrir vinkonu mína, og skúra vikulega úti á verkstæði.
Hugsið ykkur, síðustu ár hef ég varla farið út fyrir hússins dyr, mesta lagi einu sinni í viku, stundum fór ég ekki út í 2 vikur, en núna er ég á ferð og flugi. Er dugleg að fara í búðina, þegar þess þarf, og í fyrradag labbaði ég með hundana út í vinnu til Ronna, og það um hábjartan dag. Svei mér þá, ég held bara að ég sé að hressast.
Núna í mars er komið 1 ár, síðan ég hætti á öllum þunglyndislyfjum,róandi lyfjum, sefandi lyfjum og svefnpillum. Ég hef sveiflast upp og niður, en gerði það nú líka þó ég væri uppdópuð af lyfjum, en hausinn er orðinn skýrari, er farin að hugsa meira, og lyfjakílóin eru farin að renna
En hver dagur er barátta.
Take care.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)