Síld.

Heyrði í Ronna áðan (kl. er núna 19.30), þeir voru komnir með 500 tonn og á heimleið, þegar hringt var úr landi og þeim skipað að snúa við og taka um 100 tonn í viðbót.

Assgoti, núna verða þeir ekki komnir heim fyrr en einhverntíma á laugardegi.

 

Ég hata þessa síldartúra !!!!  Jújú, gott er að fá pening, til að borga skuldir, en þessir dagar sem hann er úti eru djöfulegir, (fyrir mig sko), veit að honum líður vel, því hann elskar sjóinn, þó svo hann segist vera hættur til sjós.   Svo ég reyni alltaf að bíta á jaxlinn (þennan eina sem eftir er í kjaftinum á mér) og vera hörð sjómannskona.

 

Kynntist fyrst sjónum 2002, þegar við fluttum hingað, og þá bara í landi, þegar Ronni tók að sér aukavinnu við að fella net.  Hann setti mig í það að skera af, (skera ónýtu netin af, áður en hann setti ný net á) úffffffff, gekk erfiðlega fyrst, en svo komu handtökin.

 

Í nóv. 2003 fór hann í fyrsta sinn á sjó, eftir að við fórum að búa saman, (hann hafði verið sjómaður í 20 ár, en sagðist vera hættur, þegar við kynntumst, árið 2001).

Þetta var erfiður tími, og ég fárveik, en það þýddi ekkert að tala um það, okkur vantaði peninga, svo hana nú.     

 

Síðan hefur hann alltaf tekið nokkra síldartúra, á hverju ári í nóv-des., alltaf jafn erfitt fyrir mig en alltaf jafn gaman fyrir hann.

 

Take care.


Á sjó.

Var að keyra minn mann niður á bryggju, hann er að fara einn síldartúr, ef allt gengur vel, verður hann kominn heim aftur á föstudagskvöldinu.

Þetta er hundleiðinlegt, en gott að fá smá aur fyrir jólin.

Take care.

 


Skírn.

Í dag var litla daman sem Jón Ágúst og Dagga eignuðust fyrir 2 vikum síðan,(sextánda barnabarnið okkar Ronna), skírð. Hún fékk nöfnin Árný Erla.

Árný heitir föðuramman og Erla heitir móðuramman.  Þær táruðust báðar, þegar nöfnin komu.

Til hamingju litla yngismær.

Og til hamingju með nöfnin ömmur.

 

Skírt var heima hjá þeim Jón og Döggu, og lánaði ég þeim kristalsskál, sem foreldrar mínir fengu í brúðargjöf, og ég notaði þegar Kalli minn elsti sonur var skírður,(1980) og þegar elsta barnabarnið mitt, hún Amalía Petra var skírð (1995), sem Helga dóttir mín á, og svo þegar Brynjar Hugi, miðbarn Kalla sonar míns var skírður (2005).

 

Elsta dóttir Döggu,(8 ára) hélt á þeirri litlu undir skírn og sagði nöfnin,(mamma hennar stóð við hliðina á henni og þurfti að hvísla 2x í eyrað á henni nöfnin), en hinar 2 dætur Döggu og svo sonur Jóns, stóðu hjá, öll með logandi kerti í hendi, falleg sjón.

 

Þetta var fín veisla, maður sko át á sig gat, tertur, heitir réttir og brauðtertur.

 

Nóg var af börnunum í veislunni,(14) og eftir að þau höfðu étið nóg af kökum, heimtuðu þau út, enda snjór, sem sést nú ekki oft hér á Höfn. Baltó, hundurinn okkar var látinn draga þau út og suður á snjóþotu, við mikinn fögnuð. Baltó er sko hálfur sleðahundur, Siberian Husky.

 

Eftir 2 vikur verður svo mitt yngsta barnabarn skírt, sonur Kalla, en þau búa á Akureyri, vonandi komumst við þangað, en það fer allt eftir,veðri,færð og benzinkostnaði.

 

 

Ætla að reyna að setja inn nokkrar myndir frá skírninni og bæta svo við myndum í jólaföndrið.

 


Ekki lengur bleikt......

Loksins loksins, í morgun kláruðum við að mála tölvuherbergið. Einn veggur var málaður fyrir um mánuði síðan, tveim vikum seinna,  annar veggur málaður og svo tveim vikum eftir það, semsagt í morgun voru hinir tveir veggirnir málaðir. (svona ganga nú hlutirnir hægt hjá gömlu fólki).    

En þeir sem til þekkja vita að við keyptum íbúð í gömlu húsi, fyrir tæpu ári síðan. Mikið þarf að gera, en íbúðin er samt yndislegt.

Það að Ronni veiktist, bara um 2 mánuðum eftir að fluttum, setti strik í reikninginn, en við náðum samt í vor að mála stofuna (í rólegheitum), Stofan var þegar við fluttum, dökkdumbrauð (varð meira þunglynd en venjulega þar inni), við erum búin að mála hana hvíta.

Borðstofuna máluðum við í júlí (í rólegheitum), hún var, svona píkubleik á litinn, við máluðum hana hvíta.

Og tölvuherbergið, úffffff, neðri hlutinn á veggjunum var skærbleikur, svo kom barbíborði og svo hálfhvítt fyrir ofan,( dísus maður varð meira geðveikur en vanalega þarna inni).

Ég reif nú þennan barbíborða af fljótlega eftir áramót, og lagaðist herbergið smá við það. 

En semsagt núna í dag, er allt orðið hvítt.

Við breyttum smá í herberginu í leiðinni, núna eru tölvurnar okkar hlið við hlið, en ekki ská á móti.

Já, við erum með sitthvora tölvuna, ekki annað hægt, fyrir svona tölvusjúkt fólk.

Fyrstu 2 árin eftir að við fórum að búa saman, vorum við bara með eina tölvu, og það voru eilíf slagsmál,Pinch ToungeWinksvo svaramaður minn (lehamzdr Halo) reddaði annarri, svona til að bjarga því, sem hann kom saman.            En við gömlu hjónin kynntumst á irk, og vorum mikið á irk, þar til á þessu ári, irkið var þá orðið frekar dautt og allir okkar irkvinir komnir á msn.

 

Take care.

 


Blóðþrýstingur.

Þegar maðurinn minn veiktist í mars sl. og var sendur til hjartasérfræðings,( sem sagði að hann þyrfti í hjartaþræðingu, sem var framkvæmd seinnipartinn í maí, og tókst vel, kransæð víkkuð út á tveimur stöðum), þá fékk hann lánaðan blóðþrýstingsmæli til að fylgjast með þrýstingnum.

 Ég svona að gamni mínu fór að prófa líka, og gátum við þá borið saman tölurnar. Mínar tölur voru alltaf miklu hærri en hans, en einhvernvegin kippti maður sér ekkert upp við það, engin er eins.

 

  Eftir nokkra daga mælingu, heyrði ég í systur minni, og fór að segja henni frá þessu. "Ertu brjáluð, farðu strax til læknis"

Já ég er brjáluð og það lögleg, svo ég hafði afsökun, en hlýddi þó og fór til læknis.   Hann lét mig liggja fyrir í 20 mín. og mældi svo þrýstinginn, neðri mörkin sýndu 120.

 

 Læknirinn upplýsti mig um það að normal blóðþrýstingur væri, efri mörk 105-140 og neðri mörk 60-90.   En jafnframt fékk ég skýringuna á því, af hverju ég var búin að vera svo pirruð, fljót að reiðast, með hausverk, og alltaf þreytt.   (fjúfff var farin að halda að ég væri letingi ársins).         

 

 Þá var að finna lyf sem pössuðu mér, og það tókst loksins, þrýstingur varð eðlilegur.  Einnig tók ég fæðuna í gegn, tók allt salt út (ojbara saltlaus hafragrautur), mælt var með að ég hætti að reykja, uhummmmmm hóst hóst.

 

En jæja, ennþá erum við með blóðþrýstingsmælirinn í láni, og mæli ég mig reglulega, allt í góðu, þangað til í dag, 165/103, en af hverju ?  Það veit ég ekki, en hefði átt að vera búin að fatta þetta, er búin að hafa hausverk síðan í gær, og hef ekki nennt neinu, bara lufsast um húsið.       

 

Er nýbúin að blogga um mitt bakflæði og svo blogga ég um blóðþrýsting,  hmmm, eru þetta ekki bara elli-sjúkdómar?

Jújú gömul er ég orðin, en held að ástæðan sé önnur, blogga um það seinna.

 

Take care.

 

 


Bakflæði.

Vélindabakflæði hefur verið mig lifandi að drepa, síðan í mai. Fékk jú fljótlega sterkar magapillur, en þær slógu ekkert á. Las allt sem ég fann á netinu um þetta, og breytti matarvenjum.

Fór í magaspeglun, græddi lítið á því, sást að magabólgur voru til staðar, "éta áfram þessi magalyf og forðast áhyggjur og stress" Jájá.

Einnig var breytt um blóðþrýstingslyf, ef þau skyldu nú vera að ergja mig, ekki dugði það. Þrýstingurinn rauk upp úr öllu valdi, svo ég fór aftur á gömlu lyfin.

Um miðjan ágúst hafði ég sofið 2-3 tíma á nóttu síðan þetta byrjaði í mai, var orðin assgoti þreytt og pirruð.

Vinkona mín frétti af þessu og sendi mér aloe vera drykk, og það var eins og við manninn mælt, ég snögglagaðist. Fór að geta sofið, og þó bakflæðið væri ekki horfið, þá var þetta allt annað líf.

Um daginn rakst ég á grein um bakflæði sem ég hafði ekki lesið áður.

 

Forðast ber að neyta fæðu í 3 klukkustundir áður en gengið er til náða, þeir sem reykja eiga að hætta því án tafar, forðast ber feitan mat, mjólk, súkkulaði, piparmyntu, koffein, sítrus ávexti, tómatvörur, pipar og áfengi (sérstaklega rauðvín eða hvítvín).

 

Ég borða aldrei eftir kvöldmat, stundum jú popp.....feitur matur ekki lengur hér á heimilinu.......hér bara drukkin undanrenna, og það lítið......ég var súkkulaðifíkill, en hætti að éta það, þegar þetta byrjaði, helvíti erfitt......er alveg hætt að fá mér appelsínu ....og tómatar koma ekki lengur hér inn fyrir dyr.....en, uhummmm, sko, það er góða veðrið....ég reyki ennþá og ég elska rauðvín og drekk mikið af því.

Þá vitið þið það.

Ég fer eftir öllu, nema þessu með reykingar og rauðvínið, svo hér eftir þýðir ekkert fyrir mig að vera að kvarta. Og hana nú.

 

Take care.

 

 


Ömmuleikur

Í dag fór ég í ömmuleik.  Var að passa litla nýfædda barnið (hún er aðeins 4 daga gömul), hennar þrjár systur, 2 hunda og 6 ketti.     Þetta gekk bara vel, hastaði til skiptis á hundana og systurnar þrjár og sparkaði í kettina, þegar ég gekk um með þá litlu.  Hún er algjör dúlla, þó hún sé mikið lík pabba sínum. Wink

 

Ég fékk ný gigtarlyf í gær, sem eiga að fara betur í magann en þau gömlu, og á helst ekki að keyra bíl meðan ég ét þau, vegna svima og syfju , en meðan þau slá á gigtarverkina, þá reynir maður að hunsa aukaverkanir.

 

Kallinn minn skaut eina önd í gær,( namminamm,) og á morgun ætlar hann á rjúpu, ef veður leyfir.  En í dag skaut hann 6 ketti (þessa ketti sem voru að þvælast fyrir mér í dag). Æi sárt, en nauðsynlegt.

 

Take care.

 


Helgi.

Í dag eignuðust Jón Ágúst og Dagga litla stúlku, 50cm og 12 merkur. Hún fæddi heima, og gekk allt vel. Til hamingju elskurnar.

Dagga á fyrir 3 stelpur og Jón 1 strák.   Greinilega kvennaveldi í gangi þarna.

 

Síðasta föstudagskvöld fórum við hjónin út að borða, í boði fyrirtækisins sem við vinnum hjá. Ronni sem netagerðarmaður og ég skúringarkjella.

Í forrétt var sjávarréttarsúpa, sú besta sem ég hef smakkað hingað til, svo kom nautakjöt, (mjög gott) og svo vanillubúðingur (æi ekkert spes) í eftirrétt.

Svona 10 mín. eftir að matnum  lauk, var ég mætt á klósettið og skilaði öllu. Maginn ekki upp á sitt besta. Reyndi að æla hljóðlega, og tókst það, svona næstum því.

 

En þetta var skemmtilegt kvöld, við vorum 7 saman. (átti í barnæsku bókina Leynifélagið 7saman), en ekkert leyndó var í gangi þetta kvöld. 

 

Baltó hundurinn okkar, fór í pössun til Sessu þetta kvöld. Ekki þýðir að skilja hann eftir einann heima, því þá skítur hann og mígur útum allt, og skemmir eitthvað. Sko, bara þegar við skreppum út í búð, og skiljum hann eftir í bílnum meðan við skreppum þar inn, þá er hann búinn að skíta í bílinn.

En jæja, við fórum og sóttum hann um hádegi daginn eftir (það var hryllilega tómlegt heima) og mikið var hann ánægður, þó ég viti að vel var farið með hann.

En svo þurfti ég að sækja 2 puddlehunda sem ég var búin að lofast til að passa um helgina. Heim kom ég með þá, og þá byrjuðu lætin. Urrrrrrr gelt og læti.

 

Baltó þessi ljúflingur, vildi auðvitað leika við þá, en neeeiiii, það vildu þeir ekki.

Þessir puddlehundar voru tík, sem heitir Dollý og sonur hennar sem heitir Fúsi.

Fúsi er greinilega snaröfugur, reyndi alla helgina að komast uppá Baltó, og þegar hann sneri sér undan, fékk hann urr og glefs í staðinn.

Og það mikill var atgangur Fúsa í nótt, að ég varð að loka hann inni á klósetti, svo við gætum fengið svefnfrið.

Þeir líka geltu við hvaða hljóð sem þeir heyrðu, meira að segja þegar gamla klukkan sló á hálftíma fresti, kom gelt.

Mikið var gott þegar eigandinn sótti þá í kvöld.

 

Núna er einn skipverji af Áskel hjá okkur, og er verið að éta humar. (held ég fái mér bara fiskibollur).

Át svo mikið af humar fyrst þegar ég flutti hingað, að ég fékk nóg.

 

Take care.

 


Í dag á

Í dag á hún Brimdís stjúpdóttir mín afmæli, 16 ára skvísan, til hamingju elskan.

(litla barnið hans Ronna).

 

Og í dag, tók litla barnið mitt bílprófið, það verklega og náði, til hamingju elskan.

En hann þurfti út á Skaga til að taka prófið, og það var það seint, að þegar hann kom heim, var búið að loka sýsló, svo hann má bíða til morguns, til að fá skírteinið.

Hann sagði við mig áðan, að þetta yrði sú lengsta bið, sem hann hefði upplifað.

Hann keypti sér bíl, fyrir um 2 mán. sem bíður hans.

Og ætlar hann fljótlega að taka rúnt hingað til mömmu gömlu.

 

Ég tók morgunin í það að sveima um bloggheimana , úffffff  , ekki gaman að lesa margt þar. Ekki nema von, að ég sé svona rög að commenta hjá fólki. Því ef maður segir eitthvað, þá er manni kannski bara úthýst.  Og það bara fyrir að segja sitt álit.  Er ekki í lagi hjá ykkur ?

Nei, betra að þegja og hugsa því meira.

 

Oft erum við hjónin ósammála um hin ýmsu málefni. En að ég taki hann af mínum bloggvinalista fyrir það, nei.

 

En að öðru, núna erum við hjónin og hundurinn, öll klædd í Arsenal-boli, því leikur er í gangi, og vorum við að skora mark, rétt áðan.

Og nú öskrar kallinn úr stofunni " 2-0 fyrir okkur"

Best að skella sér út á tröppur og smóka sig dáldið, og horfa svo á leikinn.

 

Nohhhh, staðan orðin 3-0 fyrir okkur, en nú er  seinni hálfleikur að byrja, ætla að horfa á hann, og klára þessa færslu eftir það.

 

Leikurinn fór 7-0 fyrir okkur, en ég reyndar sofnaði í sófanum yfir honum, skömm frá því að segja, var bara þreytt.     Var að vakna og ætla  að koma mér í rúmið og halda áfram að sofa.

 

Take care.

 

 


Bolla bolla....

Já, kallinn minn kom heim í fyrrakvöld, með nokkur mörg þorskflök. Þá um kvöldið vorum við að til hálf-þrjú um nóttina.

 Hehehe NEI, ekki það sem þið hugsið.

Ronni var að beinhreinsa og roðfletta flökin og ég að hakka.

Í gærmorgun hélt ég áfram að hakka flökin, nennti ekki að skera laukinn, heldur skellti honum í hakkavélina, og týndi þá líka til rauðlauk og graslauk (mikið grét ég, var hálfblind).

Svo í gærkvöldi fórum við í það að blanda hakkið og steikja, ég blandaði og blandaði (hveiti,kartöflumjöl,laukmauk,salt,pipar,karrý,egg) og Ronni steikti og steikti.

Allavega náði ég að klára að blanda allt hakkið, áður en við gáfumst upp og fórum að sofa.

En í morgun var Ronni kallaður út í netavinnu, bátur kom inn, með allt rifið, svo minn staður í dag, var við eldavélina (margir kallar segja að þar eigi konur að vera, plús við eldhúsvaskinn) (en hvað með rúmið ??)  KARLREMBUR.    

Steikingin tókst vel, henti svo öllu inn í ofn og hitaði smátíma, svo núna þarf bara að hita bollurnar smá upp, þá maturinn tilbúinn.

Þrifin á eldhúsinu eftir þetta allt saman, tók á bæði krafta og þolinmæði (helv,assg,djö,), þessi fiskur vill sitja sem fastast.

 

Ronni kom heim um kl 5 í dag, og þá var allt búið, bæði hér og í hans vinnu.

Rúmlega 20 kíló af fiskibollum komið í poka og tilbúið til frystingar.

 

Hvað skyldi vera í matinn hér í kvöld ?????

 

En, náði samt að horfa smá á Arsenal-Bolton í dag, missti af okkar fyrra marki, en náði því seinna. Eftir frágang á eldhúsi, var sturtan heimsótt, og klæddist þá Arsenal-bol sem minn yngsti sendi mér. Hann skrapp til London um daginn (eins og ég hef bloggað um) keypti bol á mig, lét setja aftann á hann ,,Zwanny 7,, . Hann fór á nýja leikvanginn hjá Arsenal, fór þar í þeirra verslun,sendi mér húfu líka og bangsa . Ég gaf Ronna húfuna, því hann var hálfgrátandi af öfund útí minn bol., en bangsinn trónir á efstu hillu í borðstofunni, fjarri barnabörnum og hundum.

 

Take care.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband