Færsluflokkur: Bloggar

Ömmusystir

Í dag varð ég loksins ömmusystir.   Lítill strákur kom í heiminn, til hamingju elsku Silla systir og til hamingju Brynjar og Eyrún.

 

Við erum bara þrjár systurnar (enginn bróðir), ég er yngst, og ég varð amma fyrir nærri 13 árum, barnabörnin mín eru orðin 7 og stjúpbarnabörnin 9, semsagt 16 barnabörn, svo það var löngu kominn tími til að systur mínar gerðu mig að ömmusystir.  Hin systirin verður svo amma í febrúar.   Núna vona ég að þær séu teknar við að eignast barnabörnin, svo ég  fái  smá  frí.

 

Við hjónin eignuðumst  nýjan hund á laugardaginn, hreinræktaður Enskur Pointer, ekta fuglaveiðihundur. Hann er 5 ára gamall, fyrri eigandi varð af óviðráðanlegum örsökum að losa sig við hann. Þessi fyrri eigandi hafði keypt hann á 150 þús. og þjálfað hann mjög vel upp sem veiðihund.           Við fengum hann gefins.

Auðvitað urðu voða læti fyrst þegar hann kom, Baltó tók vel á móti honum, og vildi bara leika, svo komu lætin um yfirráðin á heimilinu, þeir hommuðust um allt hús.

En í dag virðast þeir sáttir, svo ég vona að þetta gangi allt vel.   

Nýi hundurinn heitir Tígull.  

 

Ég er búin að vera þung síðustu daga,( jájá ég veit að ég er alltof þung líkamlega), en ég meina andlega þung.  Ég skal koma mér upp pillulausri. Hef ekki tekið geðpillu síðan í mars, og hef dottið niður öðru hverju síðan, en náð mér upp aftur.

Ahhhh, verð nú að segja að mér finnst ég miklu meira gömul, að vera "ömmusystir" heldur en "amma" 

 

Take care.


Félagsfælni.

Ég hef þjáðst af félagsfælni í mörg mörg mörg ár, er drulluhrædd við allt og alla.  Mér finnst að allir séu betri en ég og allir segja allt rétt, nema ég.    Byrjaði að blogga fyrir 3 árum á msn-blogginu, rólega, en smátt og smátt komu mínar hugsanir í ljós.  Hafði áður bara sett allt mitt niðurá word-skjali sem enginn sá nema ég  (ábending frá geðlækni) og vá, það hjálpaði.

 

Oft leið mér það illa, að þegar síminn hringdi,þá lét ég hann hringja, ef minn maður var heima, þá svaraði hann (ef ég hafði ekki falið símann það vel að hann fannst ekki), en ef hann fannst, og minn kall svaraði, þá eftir miklar fortölur og grát, þá laug hann, að ég væri í sturtu, sofandi eða nýfarin út að labba (hahahaha), æi ég bara gat ekki talað.       Þetta er ljótt, ég meina alltaf ljótt að plata og hvað þá að láta aðra plata fyrir sig.    En ég bara gat ekki talað..... Myndu þeim hafa liðið vel, mínum ættingjum og vinum, ef þau hafi vitað að mér leið svona illa, að ég gat ekki talað ?  NEI.    Og svona langt á milli okkar?     Betra var að þau vissu ekki.   Betra að okkur tveim leið illa, heldur en þeim öllum.    Ekki satt ?

 

Hef verið drulluhrædd að commenta hér á þessu moggabloggi, nema hjá mínum nánustu vinum, en í kvöld commentaði ég hjá einum vinsælasta bloggara landsins,ég fór í flækju á eftir, hvurnig í assgotanum þorði ég þessu.    En hún tók þessu vel, takk fyrir, þetta hjálpaði mér mikið.

 

Allavega er ég skárri en ég var fyrir um 3 árum, því núna í dag þori ég út í búð, og get verslað, og það meiraaðsegja alein, en stundum fer ég í baklás og verð að hafa kallinn með mér í búðina.    Áður fyrr, fór ég ekki í búð, ekki einusinni til að verlsa í matinn, minn kall varð að sjá um allt.  (ég fór ekki út úr húsi í 1-2 vikur).

 

En fyrir um 2 árum fór ég alein í sjoppu hér nærri, með plastpoka fullan af klinki, mig vantaði sígarettur.   Og frekar en að verða sígó-laus lagði ég þetta á mig, Guð hvað þetta var erfitt, biðja um 1 sígó-pakka og skella svo öllu klinkinu á borðið (við vorum og erum enn frekar peningalaus) (ég öryrki og minn kall verkamaður).    Mikið var ég stolt af mér, og minn maður hrósaði mér, þegar hann kom heim úr vinnu.    Ég hækkaði um marga centimetra.         En hvað leggur maður ekki á sig fyrir nikótínið ?   Ég safna alltaf í dollu öllum 1-og 5-krónu-peningum.

 

Ég hef verið uppdópuð af lyfjum gegnum árin, (sem ég er laus við núna)  ætla að blogga seinna allt um það.

 

Take care.

 


Ennþá happy

Hef verið assgoti eitthvað löt síðustu daga (eða svona downtown), en í dag sparkaði ég í rassinn á mér (er svo assgoti liðug), þreif eldhúsgluggann og setti upp jólagardínurnar.  Aðventuljósið fór jú þar út í gluggann síðasta sunnudag, og þá skipti ég líka um lyfjakörfu, sem er á eldhúsbekknum, núna heldur jólasveinn utan um lyf okkar hjóna.        Og komnar eru jólastjörnur í 2 glugga.      Svo þarf bara að fara í gegnum allar jólaseríurnar, og sjá hverjar eru heilar og hverjar ekki, og henda upp, eða í ruslatunnuna.

Kannski getum við leyft okkur að kaupa 2-3 nýjar jólaseríur núna, eftir þessar góðu fréttir í gær frá ríkisstjórninni.

 

 

Sá í morgun á mbl.is viðtal við hana Svönu (Svanhvít) (þekkti hana vel þessi 15 ár í Borgarnesi, þó sambandið hafi slitnað þegar ég flúði), hún á erfitt núna, lenti í skerðingu vegna lífeyris, en ef ég þekki Borgnesinga rétt, veit ég að þeir styrkja hana.

 

Við Baltó erum happy því Ronni er ennþá með flensuna.    Sko, ef ekki væri flensan þá hefði hann farið á sjó í dag, svo þið skiljið.     En ef flensan lagast,( sem við jú vonum að geri einhverntíma) þá fer hann á sjó líklega á sunnudag eða mánudag.

 

Fengum í pósti í dag fyrsta jólakortið, svo ég neyddist til að strauja jólakortapóstpokann (vá langt nafn) og hengja upp.

 

Áfram flensa.

 

Take care.


Happy.

Í dag erum við Baltó syngjandi happy, Ronni kom heim í gærkvöldi.  En hann er lasinn, nældi sér í flensu og var bara fárveikur síðustu 2 dagana um borð.  Gat ekki einusinni borðað, úffff og hann má sko ekki við því.   Svo núna liggur hann í bælinu.   En yndislegt að hann sé kominn heim.

 

Ég svaf sko lengi frameftir í morgun, það lengi að ég segji ekki frá því hvað kl. var þegar ég vaknaði.  Er farin að bryðja pillur rétt fyrir svefninn, (nei, er ekki kominn aftur í svefnpillurnar), (þetta eru svona brjóstsviðapillur).

 

Jæja, er farin að knúsa kallinn.

 

Take care.


Aðventa.

Heyrði frá Ronna áðan, þeir eru komnir með 550 tonn af síld og eru lagðir af stað heim.    Ættu að vera hér annað kvöld.  Loksins.

 

Ég dreif mig í búðina í gær, verslaði greni og fleira, fór svo niður í kompu og gróf upp aðventudótið. Lagðist svo fyrir og sofnaði.

Vaknaði við símann um 4-leytið, dóttir mín með rafmagnslausann bíl inni í Nesjum, svo maður neyddist út í kuldann og bruna inneftir til að gefa start.

 

Náði að skreyta aðventukransinn í gærkvöldi, áður en ég datt útaf, vaknaði rétt fyrir 6 í morgun, bakflæðið komið í heimsókn, var slæm frameftir morgni og hef druslast um í dag. Er orðin assgoti sjúskuð og þreytt. En þetta er að lagast, finn það, hver dagur betri en sá á undan.

 

Það var markaður í gær í Miðbænum, og ég splæsti þar í harðfisk, sem Baltó elskar útaf lífinu, bíð bara eftir að hann opni ísskápinn sjálfur til að redda sér.

 

Take care.


Óveður.

Hér er óveður, og búið að vera það allavega síðan ég vaknaði rúmlega 7 í morgun.

Brjálað rok og rigning, Baltó meira að segja þorir ekki út að pissa.

 

Heyrði frá Ronna í morgun, þeir náðu að skríða inn í Hafnarfjörð og verða þar við bryggju, stefnt er að því að komast út kl 11 í kvöld.    Assgoti, nú dregst það að hann komi heim.   Eins og ég sagði í síðasta bloggi, skil ekki af hverju skip eru send út, þegar spáð er svona veðri.

 

Nóttin var slæm hjá mér, bakflæðið á fullu, ældi og ældi, og sá svart, varð að leggjast á klósettgólfið, hef ekki fengið svona slæmt kast síðan í sumar.

 

Take care.

 


Aftur á sjó.

Enn og aftur er kallinn minn farinn á sjó, þetta er fjórði síldartúrinn hans núna.

Ef allt gengur vel, kemur hann heim á sunnudag.

En veðurspáin er hryllileg, stormur að skella á, svo ekki komast þeir á síldarmiðin fljótt og vel, skil ekki af hverju skip eru send út þegar svona spáir.

 

Námskeiðinu lauk í gær (bloggaði um það um daginn), við vorum svo ánægðar konurnar með það, að við vildum helst ekki hætta, og ég lærði helling á því, verð bara að vera dugleg að láta þetta allt tolla í hausnum á mér.

 

Hef sofið illa undanfarnar nætur, helv. bakflæðið að angra mig. En þetta er bara mér að kenna, hef ekki passað nógu vel, hvað ég hef sett ofan í mig, verð að taka mig á.

 

Heimsækji bókasafnið reglulega núna, til að ná nýju bókunum.

Er núna að lesa mjög góða bók, get varla lagt hana frá mér, Þúsund bjartar sólir heitir hún. Mjög átakanleg en vel skrifuð.

 

Take care.


Skírn.

Jæja, síðasta föstudag fórum við á Akureyri. (lesið ferðalýsingu á Ronna-bloggi ).

 

Kalli elsti sonur minn, sem býr þar ásamt Möggu konu sinni og 3 börnum, var að fara að skíra sitt yngsta barn.

 

Einar Trausti og Jón Ingi (synir mínir) voru komnir, en þeir skelltu sér frá Borgarnesi á fimmtudagskvöldinu.

Það var yndislegt að hafa öll börnin mín í kringum mig, en Helga dóttir mín og Amalía hennar elsta barn,  komu með okkur Ronna. 

Það eru komin 3 ár síðan við höfum öll hist svona saman, svo þið getið rétt ímyndað ykkur tilfinningaflóruna.

Eftir mikið knús, fórum við Ronni út á Hauganes, til Steina og Ásu, en þar vorum við búin að betla gistingu þessa helgi.

Alltaf jafn yndislegt að sækja þau heim, góðar og hlýjar móttökur.

 

Daginn eftir laugardag, brunuðum við Ronni svo inn á Akureyri í skírnina.

Skírt var heima, því sá litli er búinn að vera ansi veikur síðan í september, í síðustu viku komust læknar loks að því, að hann væri með RS-vírus, svo honum verður haldið inni næstu vikur, og vonandi næst þetta fljótt og vel úr honum.

Presturinn var mjög góður, Óskar heitir hann, og var hann í því nærri alla athöfnina að rétta skírnarbarninu leikfang, svo hann róaðist (skírnarbarnið sko, ekki presturinn.

Móðurafinn hélt á skírnarbarninu undir skírn, enda átti hann afmæli þennan dag.

Til hamingju Árni minn.

 

Barnið var skírt Karl Ágúst.

 

Karl Ágúst Karlsson, fæddur 11.maí, en það er afmælisdagur mömmu minnar, en hún dó 1993. Skírður í höfuðið á pabba sínum, sem er skírður í höfuðið á pabba mínum,(Karl, sem dó 1970), og Ágúst (hva, ég er fædd í ágúst), skírnarskál frá mér og ég skírnarvottur.  Ekki nema von að mér finnist ég eiga svoldið mikið í þessu barni.

 

Til hamingju Karl Ágúst og fjölskylda með  þennan dag.

 

Við átum á okkur gat í veislunni, og svo þegar við komum á Hauganes um kvöldið, var þessi líka æðislegi kvöldmatur, og eftir það át, lagðist ég inn í rúm, og sofnaði, þó kl. væri bara 9 um kvöld.

 

Það var erfitt að kveðja daginn eftir, bæði á Hauganesi og svo Akureyri.

 

Takk öll sömul fyrir yndislega helgi, og takk Bjössi-bæjarstýra fyrir ómetanlega hjálp.

Og takk Bertha Þórbjörg fyrir góða hundapössun.

 

En elsku ættingjar og vinir, ef þið ætlið einhverntíma, á vetrartíma, að ferma,skíra,giftast eða eitthvað, þá sitjum við heima.

Þetta var það erfitt ferðalag, að við leggjum aldrei aftur í svona.

Við erum orðin gömul og lúin.

 

Og svo lét ég allar matarreglur lönd og leið, þessa helgi, át allt sem ég sá og drakk kaffi, eins og mér væri borgað fyrir það, enda skemmtir bakflæðið sér vel núna.

 

Take care.

 


Mánudagur.

Heyrði í Ronna rétt áðan, þá voru þeir að draga inn líklega um 300 tonn af síld. Ekki verður kastað aftur fyrr en í birtingu í fyrramálið, svo það dregst að þeir komi heim. (þeir hætta ekki fyrr en 500-600 tonn eru komin).  Assgoti.

En stímið hér á milli, Höfn-Grundarfjörður er um 1 sólarhringur......alltof langt.

Af hverju getur þessi síld ekki hangið hér fyrir utan Hornafjörð?

 

Í morgun um 10-leytið birtist Helga vinkona hér, með þennan líka rosa morgunmat, ég át svo mikið að ég var södd fram á miðjan dag. Takk fyrir mig Helga mín.

 

Á morgun fer ég á námskeið. "Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur".   Mér var boðið frítt á þetta, og bara gat ekki neitað, því ekki veitir mér af þessu, en er komin með kvíðahnút í magann. Námskeiðið er frá 1-4 þriðjudaga og fimmtudaga, í 2 vikur.

Vonandi hef ég eitthvert gagn af þessu, og veit að svo verður, ef ég bara get munað það sem ég læri á þessu námskeiði.   Málið er sko, að ég gleymi öllu, verð að hafa tossamiða til að minna mig á allt.

 

En leyfi ykkur að fylgjast með hvernig gengur.

 

Take care.


Aftur á sjó.

Ronni kom í land kl 8 í gærmorgun, og fór aftur núna kl 13.

Þetta var stutt stopp, en við fórum nú samt í gærkvöldi, með vinnufélugum hans af netaverkstæðinu, á Hótelið hér að skemmta okkur.

 

Matur og show á eftir, Eitís hét það, alveg hreint út sagt frábært.

Ég táraðist oft þegar gömul góð lög komu, og stundum langaði mig bara út á gólf og dansa villt og galið, eins og maður gerði nú oft, þegar þessi lög voru upp á sitt besta (og ég upp á mitt besta).

Aðal ballstaðirnir voru nú þá, Sævangur, Dalabúð, Víðihlíð, Laugarbakki og Hvammstangi.

Æijá, mikið var gaman þá.

Það var auðvitað ball á eftir showinu, en við gömlu hjónin ákváðum að sleppa því og fórum heim á skikkanlegum tíma, enda ekki gott fyrir gamlan mann að vaka og drekka lengi, þegar síldartúr er daginn eftir.

 

Baltó var í pössun hjá Nonna og Sessu í gærkvöldi, og skemmti sér vel, enda 2 hundar og 1 köttur þar á heimilinu. En hann var ósköp ánægður þegar Ronni sótti hann í morgun.

Ef við skiljum hann einan eftir heima, þá skítur hann og mígur út um allt, og alltaf skal hann skíta í bílinn, þegar við skreppum í búðina, og látum hann bíða í bílnum á meðan. Vonandi eldist þetta af honum.

 

Take care.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband