Færsluflokkur: Bloggar

Pilluát.

Ég datt í helv,,,,,,,svarta pyttinn einu sinni enn, en er í dag á góðri uppleið.

 

Þetta þunglyndi, með sínum fylgikvillum, félagsfælni, vanmáttarkennd og fleiru, er martröð.

 

Ég var fyrst greind með þunglyndi 1985.  Fékk þá Trypisol (truntusól var það kallað), át það í einhverja 3 mánuði, og síðan ekki meir, og ekkert meira pælt í þessu.

 

Lenti svo í slysi 1989  þetta slys gerði mig að 75% öryrkja ( var þá 33 ára) og þá lenti maður niður til andskotans, en engar gleðipillur fékk ég þá.

 

Varð ófrísk af mínu fjórða og yngsta barni 1990, fékk þá meðgönguþunglyndi, það var helvíti.

 

Nokkrum árum seinna var ég komin á væg þunglyndislyf hjá heilsugæslulæknum.  Ekkert meira var gert.

 

Í desember árið 2000 veikist ég illa af þunglyndi og lendi inn á geðdeild.      Var þar í 2 vikur ,  en þá koma jól, og deildinni lokað, og ég send heim, uppdópuð.      Þar byrjaði pilluátið.

 

Vorið 2001 fer ég á Reykjalund, er þá  tröppuð niður af róandi, sem ég hafði étið síðan í desember. Það var helvíti.   Tók samt áfram geðlyfin og svefnpillurnar.

 

2002 er ég aftur komin á róandi og önnur geðlyf, og ét svefnpillur áfram.

Og áfram heldur dópið.

Á tímabili var  ég farin að éta , samkvæmt læknisráði 21 pillu á dag, geðpillur, róandi, sefandi, slakandi og svefnpillur.

Þurfti orðið 5 pillur á kvöldin, til að sofna.

 

Loks kom einhver glæta í hausinn á mér, og ég fór að trappa niður lyfin, 16 á dag, 12 á dag, þetta niðurtrapp tók nokkra mánuði.

Mér var ráðlagt að fara inná Vog til að trappa niður, en ég þrjóskaðist við.

 

Öll þessi ár hef ég þurft að fara til geðlæknis í Reykjavík á 3 mánaða fresti,(og þrisvar á geðdeild, er þar allt frá 2 vikum upp í 4 vikur), þangað til í september í fyrra, þá fékk ég nóg, fór til heilsugæslulækna hér á Höfn,  og sagðist vilja trappa niður öll lyf, vildi prófa pillulaust líf .

 

Jú leyfið fékkst. ¼ var skorin af þessari tegund, ½ af þessari og svo framvegis.

Í mars síðastliðnum tók ég síðustu geðpilluna og síðustu svefnpilluna. 

Hafði þá trappað mig niður af róandi og sefandi.

 

Í dag er  ég jú skýrari í kollinum, meira meðvituð um lífið í kringum mig, en man lítið sem ekkert eftir síðustu árum, allt í þoku.

 

Ég hef heimsótt svarta pyttinn 3 sinnum, síðan ég varð lyfjalaus,komið mér upp aftur lyfjalausri, svo ég er sátt.

Því ég heimsótti svarta pyttinn nokkuð oft á þessum árum, og fjórum sinnum reyndi ég að láta mig hverfa, þó ég væri uppfull af lyfjum.

 

Jú geðlyf eru nauðsynleg, og kannski á ég eftir að éta þau aftur, en þá í takmörkuðu magni, vona allavega að ég hafi vit á því.

 

En ég virðist samt ekki geta lifað pillulaus, því í mai (var þá búin að vera pillulaus í 2 mán.) rauk blóðþrýstingur upp úr öllu, svo ég verð að taka 2 pillur á dag, til að halda honum niðri.     Í júni kom svo bakflæðið, verð að taka 1 pillu á dag við því.

Tek svo gigtarpillurnar öðru hvoru þegar verkirnir eru alveg að drepa mig, en reyni frekar að pína mig heldur en éta þær, því maganum er illa við þær.

 

Take care.

 

 Ath. þessi færsla er skrifuð í desember 2007, þorði ekki fyrr en í morgun að láta hana vaða inn.

 

 


Jæja, þá er það fyrsta færslan á þessu ári.

Jæja, þá er það fyrsta færslan á þessu ári. 

 

Svarti pytturinn er búinn að vera að lokka mig og laða síðustu daga, og þykist ráða yfir mér, og eins hefur blóðþrýstingurinn verið að ibba sig líka.  Meiri frekjan í þessu drasli.

 

Í dag er mágur minn í Borgarnesi fimmtugur, til hamingju með það gamli minn.

 

Var í dag að klára að lesa mjög spennandi og góða bók, Eldveggur eftir Henning Mankell.  Þetta er áttunda bókin um rannsóknarlögreglumanninn Wallander og eru þær allar mjög góðar, en þessi slær þær allar út, virkilega gaman að gleyma sér í svona spennu.

 

Er orðin hundleið á jóladraslinu um allt hús, væri búin að taka það allt niður, ef  ég hefði orku í það, en vona að það geti orðið á morgun.  En seríurnar mega alveg hanga uppi út janúar, það veitir ekki af að lýsa aðeins upp skammdegið.

 

Take care.


Gleðilegt ár.

Við hjónin vorum að koma heim úr hinni árlegu matarveislu, sem Nonni og Sessa halda alltaf á gamlárskvöld.        Þetta var stórveisla eins og vanalega, margréttað og yndisleg humarsúpa í forrétt.     Fullt hús af fólki, og mikið gaman.

 

Horfðum á flugeldasýninguna og drifum okkur svo heim, því Baltó og Tígull voru bara einir heima. Þeir tóku vel á móti okkur, og höfðu passað húsið vel.

 

Ég byrjaði á því að skipta um föt, því annað hvort hafði ég étið of mikið eða fötin minnkað alveg helling, svo nú sit ég hér í víðum kjól  og leyfi öllum vöðvum að slaka vel á út í loftið.

 

Er búin að blanda mér romm í kók (leyfi mér það alltaf á gamlárskvöld), og bíð eftir skaupinu.

 

 Á miðnætti fer maður svo að hringja í sína nánustu.

 

Gleðilegt ár elskurnar mínar og takk fyrir það ár sem er að líða.

 


Jólaboð.

Við gömlu vorum að koma úr jólaboði hjá tengdapabba og hans konu.

Auðvitað át maður yfir sig, enda miklar kræsingar á borðum.

 

Í gær var ég að lesa bók, sem ég tók á bókasafninu, dísus kræst mér ofbauð lýsingarnar, marglagði bókina frá mér, en þrjóskaðist við, enda var hún spennandi.

Þessi bók heitir Ógn eftir Þórarinn Gunnarsson.

 

Kláraði nýju bókina eftir Yrsu í fyrradag, hún var góð.

 

Núna ætla ég að henda mér í sófann, horfa á Everton-Arsenal, kíkja í nýju Harry Potter bókina, og narta í saltstangir.

 

Take care.


Bóka-osta-jól.

Þetta eru búnir að vera yndislega rólegheita-bókalesturs-átveislu-dagar.

 

Við gömlu vorum bara ein á aðfangadagskvöld, með okkar tveim hundum.

Við erum búin að halda 7 jól saman, og þetta er í þriðja skiptið sem við erum bara tvö með okkar hunda.        Ósköp rólegt, en verður að viðurkennast, frekar einmanalegt.

 

Ég er vön stórum fjölskyldujólum, en er löngu búin að læra það, að jólin koma, hvort sem við erum eitt tvö eða þrjú, og hvort sem við eigum mat eður ei, og hvort sem við getum gefið jólagjafir eða ekki, jólin koma og eru.

 

Mesta fjörið hjá okkur núna á aðfangadagskvöldinu var þegar hundarnir fengu sína jólapakka. Harðfiskur, pakkaður í plast og jólapappír.

Tígull var svo snöggur að rífa sinn pakka upp, og éta, að það varla festist á filmu, en Baltó litli þurfti hjálp, enda eru þetta hans fyrstu jól.

 

Við gömlu fengum margt fallegt í jólagjöf, og mörg jólakort.

 

Minn maður gaf mér 2 bækur í jólagjöf (fyrsta skiptið síðan við fórum að búa, að ég fæ bækur í jólagjöf)  (ég þessi mikli lestrarhestur og besti kúnni bókasafnsins).

En núna loksins var til peningur, til að eyða í hvort annað. 

Hann gaf mér nýju bækurnar eftir Arnald og Yrsu.

Ég las Arnald á jólanótt, góð, en vantaði spennuna.

Byrja líklega á Yrsu á morgun, því ég var með 2 bækur af bókasafninu, sem ég varð að klára að lesa, því verð að skila þeim á morgun.

 

Ég gaf mínum kalli  veiðihanska.

Veit að mörgum finnst þetta lítilfjörlegar gjafir, en fyrir okkur er þetta meira en nóg.

 

Fengum risa-ostakörfu frá góðri vinkonu hér á Höfn (saumakonan), enda lá ég í gær, allan jóladaginn í sófanum, át osta og las.

 

En í dag eru 37 ár síðan pabbi dó (kransæðarstífla), ég var þá 14 ára, mínar systur 16 og 18 ára.    Þetta voru erfið jól, og þau næstu líka.

 

Take care.

 

 


Gleðileg jól.

Þá er möndlugrautsveislan búin, en ég hef síðustu ár, haft möndlugrautinn í hádeginu á aðfangadag, fyrir þau börn og barnabörn, sem eru á staðnum.

Í dag komu Helga og Bjarki með sín 4 börn og Jón Ágúst og Dagga með sín 5 börn.

 

Helga fékk möndluna í ár.

En það er alltaf mesti hausverkurinn að finna möndlugjöf sem passar fyrir börn eða fullorðna.      Fékk Helgu með mér fyrir 2 dögum, til að finna eitthvað, svo það var lítið spennandi fyrir hana að fá pakkann.

 

Ég þrefaldaði grautar-uppskriftina núna, en það dugði ekki til, svo ég verð líklega að fimmfalda hana næst, þá ættu allir að fá nóg.

 

Núna sitjum við gömlu bara og bíðum eftir jólunum.

 

Gleðileg jól elskurnar mínar.


Jólin koma

Datt í ljóta svarta pyttinn, en er á góðri uppleið.

 

En loksins þegar ég fór að dragast upp úr þessum pytti, fór allt á fullt hjá mér.

 

Baka og baka, er núna búin að hnoða og baka þrisvar sinnum þessa smákökuuppskrift, sem fer í jólagjafir,  (var löngu búin að tvöfalda uppskriftina),                     skrifa jólakort og senda,                      pakka inn jólagjöfum og senda,                     baka púðursykurstertu (sem misheppnaðist, en það breytir engu, brytjaði hana niður og hræri svo þeyttum rjóma saman við, namminamm),                     skreyta allt hér inni,      strauja jóladúka,                                            og klippa hárið á mér.      Já, síðustu 6 ár hef ég klippt mig sjálf (hef tvisvar farið á hárgreiðslustofu þessi ár), kaupi lit eða strípur úti í búð, og bið einhvern sem nennir að setja í mig.           Minn kall snoðrakar á sér kollinn öðru hverju, en núna er hann að safna, held að hann sé kominn með síðara hár en ég núna (ég fer að ráðast á hann þegar hann sefur, vopnuð skærum).

 

Ronni er búin að baka tvisvar piparkökuuppskriftina.

 

Og hann steikti laufabrauð í vikunni,ég kom ekki nálægt því, var á fullu að pakka inn jólagjöfum, sem þurfti að senda.       Og það gekk lygilega fljótt og vel hjá honum, við höfum nú alltaf verið saman í þessu (og ég vil halda að ég geri eitthvert gagn).                  Verst hvað það er búið mikið af laufabrauðinu strax, bara svo assgoti gott að narta í þetta.

 

Ronni teppalagði stigann hjá okkur í vikunni, flottur (stiginn sko),   verð örugglega miklu duglegri að nenna upp að pissa núna, hætti að halda í mér lon og don.

 

Í gær fengum við hjónin jólagjöfina frá fyrirtækinu okkar, hann vinnur þar við netagerð, en ég skúringar.   Vá vá vá, fengum visakort með inneign,  æðislegt, (við eigum engin svona kreditkort, enda býður það bara upp á skuldir),     en í dag gat ég farið og keypt jólagjöf handa mínum kalli (og samt ekki búin með inneignina), tralalalalalalalla.

 

Í hádeginu á morgun förum við svo í hina árlegu skötuveislu hjá Nonna og Sessu,mikið hlakka ég til.

 

Take care.

 


Baka baka...

Hnoðaði í smákökur í gær, eldgömul uppskrift, sem ég ólst upp við hjá mömmu, hver einustu jól sem ég man eftir, og ég tók upp þegar ég fór að búa      .Þetta heita Vanillusmákökur, eftir að hafa hnoðað, rúllar maður upp í pylsu, geymir til næsta dags, sker þá niður, penslar með eggi, og setur svo skrautsykur á, (mikil handavinna), en namminammi góðar.

Svo í dag fór ég að baka,minn kall vaknaði upp við lyktina, fór í stuð,og var brátt farinn að hnoða í piparkökur.  

Svo ég forðaði mér úr eldhúsinu til að leyfa honum að hafa sitt speis.    Nammi,mjög góðar piparkökur sem fæddust hjá honum, þær bestu sem ég hef smakkað. Hef nú oft bakað piparkökur, en aldrei með kaffi í, eins og hann vildi, vá,góðar.

 

Hér áður fyrr bakaði maður 8-10 sortir af smákökum fyrir hver jól.  Plús svo allar terturnar.  En eftir skilnað nr.2, og við Ronni fórum að búa saman (barnlaus), jú ég bakaði, en ekkert var étið (ég er ekki fyrir smákökur eða tertur , og greinilega Ronni ekki hrifinn af mínum bakstri), þá varð ég að henda öllum bakstri í febrúar, svo ég hét því þá, að baka ekki framar.   

En í ár,þá ákvað ég að, sníkja glerkrukkur hér og þar, líma sérvettur utanum, setja smákökur ofaní,og gefa í jólagjafir, svo ég neyddist til að baka, svo hrærivélin og vigtin voru neydd upp úr kompunni..

Já elskurnar mínar, þið fáið smákökur í jólagjöf.

 

Svo í dag hefur verið hér jólastemming, kveikt á kertaljósum og ilmandi bökunarlykt.

 

Take care.


Síldarjól.

Í dag fékk Ronni uppgjör af 2 síldartúrum, og það kom sér vel. 

Langur tossalisti var fæddur hér í bæ, ýmislegt vantaði í eldhússkápana, plús ýmislegt annað sem tengist jólunum.     Þessi blessuð jól kosta pening.

 

Svo við hjónin skelltum okkur í búðarráp, þegar minn kall kom úr vinnu.

Sem betur fer eru ekki margar búðir hér, því mér finnst ekki gaman að fara búð úr búð, og láta sjá mig.  Og ekkert græddum við á þessu búðarrápi, fyrr en í Nettó, en þar enduðum við.  Keyptum þar í jólamatinn., og fylltum tóma eldhússkápa, plús að þar fundum við loksins þær 5 jólagjafir sem okkur vantaði.   En mikið djö..... þurftum við að borga, úffff  rúmar 20 þusund.      

Sko við erum ekki vön að eyða í búð nema svona 1-2 þúsund kr. svo þetta er soldið mikið fyrir okkur.

 

En við getum samt ekki kvartað, því um daginn kom hér yndisleg kona, með fullan poka af sokkum og peysu sem  hún hafði prjónað, og allskonar jólaskrauti sem hún hafði búið til, og gaf okkur, til að gefa öðrum. Takk elsku Halla.

Ég fékk Helgu dóttur mína í heimsókn til að hjálpa mér að sortera og sjá út hvað passaði á hvaða barn.    Og í dag hef ég setið sveitt við að pakka inn jólagjöfum.

En margar  jólagjafir eru eftir, ég hef föndrað alveg helling,  svo núna á maður bara eftir að ákveða hver á hvað.

 

Sko, við eigum erfitt, erum samt bara tvö í heimili (ég öryrki,minn kall á lægstu verkamannalaunum), en eigum fullt af börnum og barnabörnum,  en Guð  minn góður, hvernig eru jólin hjá þeim sem eru með börn heima?

 

Þessi blessuð jól, fyrir hvern eru þau?

 

Allavega hugsa ég alltaf um börnin, þau eru svo spennt, og þau trúa svo mikið á jólasveininn.

 

Og börnin eiga alltaf   að  fá það besta.

 

Take care.

 


4 ára.

Sveinn Tristan er 4 ára í dag, til hamingju elsku kallinn minn.

Ég var viðstödd þegar þú komst í heiminn, og stuttu eftir fæðingu þína, þurfi mamma þín á wc og pabbi þinn fylgdi henni, ljósmóðirin skrapp fram, og við vorum tvö ein eftir.    Ég tók þig í fangið og þú horfðir á mig skýrum augum og hreyfðir varirnar ótt og títt, það var eins þú þyrftir að tala mikið.  Við náðum sambandi og höfum haldið því síðan.

Ég elska þig.

 

Ég hef verið viðstödd allar 4 fæðingar dóttur minnar, alltaf jafn yndislegt, alltaf sama kraftaverkið, alveg ólýsanlegt.

 

Take care.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband