8.1.2008 | 10:44
Pilluát.
Ég datt í helv,,,,,,,svarta pyttinn einu sinni enn, en er í dag á góðri uppleið.
Þetta þunglyndi, með sínum fylgikvillum, félagsfælni, vanmáttarkennd og fleiru, er martröð.
Ég var fyrst greind með þunglyndi 1985. Fékk þá Trypisol (truntusól var það kallað), át það í einhverja 3 mánuði, og síðan ekki meir, og ekkert meira pælt í þessu.
Lenti svo í slysi 1989 þetta slys gerði mig að 75% öryrkja ( var þá 33 ára) og þá lenti maður niður til andskotans, en engar gleðipillur fékk ég þá.
Varð ófrísk af mínu fjórða og yngsta barni 1990, fékk þá meðgönguþunglyndi, það var helvíti.
Nokkrum árum seinna var ég komin á væg þunglyndislyf hjá heilsugæslulæknum. Ekkert meira var gert.
Í desember árið 2000 veikist ég illa af þunglyndi og lendi inn á geðdeild. Var þar í 2 vikur , en þá koma jól, og deildinni lokað, og ég send heim, uppdópuð. Þar byrjaði pilluátið.
Vorið 2001 fer ég á Reykjalund, er þá tröppuð niður af róandi, sem ég hafði étið síðan í desember. Það var helvíti. Tók samt áfram geðlyfin og svefnpillurnar.
2002 er ég aftur komin á róandi og önnur geðlyf, og ét svefnpillur áfram.
Og áfram heldur dópið.
Á tímabili var ég farin að éta , samkvæmt læknisráði 21 pillu á dag, geðpillur, róandi, sefandi, slakandi og svefnpillur.
Þurfti orðið 5 pillur á kvöldin, til að sofna.
Loks kom einhver glæta í hausinn á mér, og ég fór að trappa niður lyfin, 16 á dag, 12 á dag, þetta niðurtrapp tók nokkra mánuði.
Mér var ráðlagt að fara inná Vog til að trappa niður, en ég þrjóskaðist við.
Öll þessi ár hef ég þurft að fara til geðlæknis í Reykjavík á 3 mánaða fresti,(og þrisvar á geðdeild, er þar allt frá 2 vikum upp í 4 vikur), þangað til í september í fyrra, þá fékk ég nóg, fór til heilsugæslulækna hér á Höfn, og sagðist vilja trappa niður öll lyf, vildi prófa pillulaust líf .
Jú leyfið fékkst. ¼ var skorin af þessari tegund, ½ af þessari og svo framvegis.
Í mars síðastliðnum tók ég síðustu geðpilluna og síðustu svefnpilluna.
Hafði þá trappað mig niður af róandi og sefandi.
Í dag er ég jú skýrari í kollinum, meira meðvituð um lífið í kringum mig, en man lítið sem ekkert eftir síðustu árum, allt í þoku.
Ég hef heimsótt svarta pyttinn 3 sinnum, síðan ég varð lyfjalaus,komið mér upp aftur lyfjalausri, svo ég er sátt.
Því ég heimsótti svarta pyttinn nokkuð oft á þessum árum, og fjórum sinnum reyndi ég að láta mig hverfa, þó ég væri uppfull af lyfjum.
Jú geðlyf eru nauðsynleg, og kannski á ég eftir að éta þau aftur, en þá í takmörkuðu magni, vona allavega að ég hafi vit á því.
En ég virðist samt ekki geta lifað pillulaus, því í mai (var þá búin að vera pillulaus í 2 mán.) rauk blóðþrýstingur upp úr öllu, svo ég verð að taka 2 pillur á dag, til að halda honum niðri. Í júni kom svo bakflæðið, verð að taka 1 pillu á dag við því.
Tek svo gigtarpillurnar öðru hvoru þegar verkirnir eru alveg að drepa mig, en reyni frekar að pína mig heldur en éta þær, því maganum er illa við þær.
Take care.
Ath. þessi færsla er skrifuð í desember 2007, þorði ekki fyrr en í morgun að láta hana vaða inn.
Athugasemdir
Úff þetta er rosaleg lesning. Farðu vel með þig
Ragnheiður , 8.1.2008 kl. 13:23
Bara láta vaða. Og jafnvel þó að þú birtir ekki þá er gott að skrifa til að fá útrás. Ég tek ofan fyrir þér að hafa þrátt fyrir þokukennt líf, tekið þessa ákvörðun; að lifa lyfjalaus. Gangi þér allt í haginn.
Jóna Á. Gísladóttir, 8.1.2008 kl. 22:34
Þú sýnir mikið hugrekki með þessari færslu. Ég hef trú á að þetta sama hugrekki hjálpi þér með framtíðina. Lífið getur verið svo dásamlegt ef maður lærir að njóta þess. Stundum þarf að taka lyf en ég held að það sé langoftast farsælla ef maður á þess kost að sleppa þeim. Gangi þér rosa vel að sleppa þeim.
Anna Einarsdóttir, 8.1.2008 kl. 23:32
Svana mín, gott að þú byrtir þetta, oft líður manni vel að tjá tilfinningar sínar.
Þetta hefur ekki verið auðvelt hjá þér, en auðvitað liggja margir hlutir að baki, slysið og verkirnir og margt og margt. Vonandi tekst þér að komast uppúr þessum svarta pytti sem fyrst. Sendi þér baráttukveðjur og gangi þér vel.
Hulda Margrét Traustadóttir, 9.1.2008 kl. 08:11
Hugrakka stelpa, flott færsla hjá þér, með einu skrefi hefst ferðalag og maður stjórnar því sjálfur hvað maður tekur með sér og hvað maður skilur eftir og með hörkunni hefst það ... eitt skref í einu og einn dag í einu. Áfram en ekki afturábak.
Sorry hvað ég er léleg að kommenta Svanný mín, er að reyna að rífa mig upp úr svefndrunganum en gengur hægt, engin lyf, bara fæðubótarefni.
Maddý (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 17:23
takk takk kæru bloggvinkonur
Svanhildur Karlsdóttir, 9.1.2008 kl. 19:22
Ég þekki einn vel sem var mikið í víninu - hætti því en fór þá í lyfin - málið var slæmt, hann fór á Vog til þess að ná tökum á lífi sínu, hann er í góðum málum í dag, vinna, einkamál, allt - hann stundar fundi hjá SÁÁ........bara að láta þig vita að það er hjálp þarna úti !!! Love
Hulda Margrét Traustadóttir, 9.1.2008 kl. 19:49
Þú ert dugnaðarforkur og ég dáist að þér í þinni baráttu við svarta pyttinn.
Gangi þér sem allra allra best.
Kv.
Áslaug hans Óla
Áslaug (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 10:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.